Veit utanríkisráðherra ekki um hvað fréttamennska snýst?

Geðillskusvar utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, við endurteknum spurningum fréttastofu Stöðvar 2 um eftirlaunakerfi alþingismanna og loftorð hennar á landsfundi Samfylkingarinnar um að það óréttláta kerfi yrði endurskoðað, vekur athygli. Auðvitað á að spyrja ráðherrann í þaula þar til vitrænt svar fæst. Í frægum dægurlagatexta var eitt sinn spurt "hvað er svona merkilegt að vera karlmaður?", það mætti allt eins spyrja "hvað er svona merkilegt að vera þingmaður?" og er það eitthvað merkilega en hvað annað, s.s. að vera blaðamaður eða rafvirki? Nei, alls ekki. Hefur formaður Samfylkingarinnar verið ofurliði borinn í sínum flokki í þessu máli eða má formaðurinn ekkert vera að því að sinna því vegna anna vegna vonlítillar og rándýrrar baráttu um sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna?

Hvar er Össur Skarphéðinsson? Af hverju bloggar hann ekki um þetta mál? Hver er skoðun óbreyttra þingmanna Samfylkingarinnar, eða jafnvel óbreyttra félagsmanna í Samfylkingunni? Þeir klöppuðu fyrir orðum Ingibjargar Sólrúnar á  sínum tíma, hvað nú?


Sama hvað það kostar?

Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna leggur mikla áherslu á mikilvægi þess að við Íslendingar fáíslenskar landbúnaðarvörur. Ég velti hins vegar alvarlega vöngum yfir því hvort það sé verjanlegt fyrir hvaða verð sem er. Það eru borgaðir þrír milljarðar með sauðfjárframleiðslunni. Er það  verjanlegt? Ef þessi kindakjötsskattur er tekinn með kostar kindakjötið einfaldlega heilmikið. Það verður fróðlegt að heyra hvað kemur út úr Búnaðarþingi 2008.

 

 


mbl.is Bændur þinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipulagssamkeppni og aðstöðuleysi KR

 

Skipulagssamkeppni til einskis?

Viðamesta og sennilega metnaðarfyllsta skipulagssamkeppni sem haldin hefur verið á Íslandi er samkeppnin um Vatnsmýrina sem nýlega var kynnt. Áhuginn var einnig augljós um allan heim, því alls bárust  yfir 130 tillögur í keppnina. Aðeins í tveimur tillögum var gert ráð fyrir að Reykjavíkurflugvöllur yrði áfram. Skiptar skoðanir hafa verið í borgarstjórn um það hvort flugvöllurinn eigi að vera, og nýr borgarstjóri hefur lýst því yfir að hann verði, og vísar þar til samkomulags milli þeirra sem nú skipa meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. En þegar tillögurnar voru kynntar í Listasafni Reykjavíkur brá svo við að allir voru afskaplega ánægðir með að flugvöllurinn ætti að fara, og þeir sem þyrftu að skreppa út á land í framtíðinni gætu bara skroppið til Keflavíkurflugvallar og flogið þaðan. En vinningstillögurnar fjalla ekkert um það hvort og því síður hvenær flugvöllurinn fer. Borgarstjórn getur hins vegar einfaldlega ekki vikist undan því lengur að taka ákvörðun um framtíð flugvallar í Vatnsmýrinni, jafnvel þótt borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins séu í gíslingu Ólafs F. Magnússonar í þessu máli. Flugvöllurinn er heldur ekkert einkamál Reykvíkinga, höfuðborgin hefur skyldur við alla landsmenn, hér er stjórnsýslan, hingað rekur fólk utan af landi erindi sín við ráðuneyti og aðrar opinberar stofnanir og þetta fólk sættir sig margt hvert ekki við að þurfa að fljúga til Keflavíkurflugvallar til að komast til höfuðborgarinnar ef aðrir samgöngukostir eru ekki fyrir hendi, t.d. á vetrum þegar fjallvegir teppast. Framtíð flugvallar í Vatnsmýrinni er ekki bara spurning um framtíð Reykjavíkur, heldur einnig spurning um framtíð landsbyggðarinnar allrar. Skipulag Vatnsmýrarinnar er ekkert einfalt mál. Það þarf líklega að byrja á því að efna til skipulagssamkeppni um byggð í Vatnsmýrinni með flugvöllinn sér við hlið og þá spyrja eflaust margir, til hvers var þá þessi skrautsýning í Listasafni Reykjavíkur. Svo má minna á að það að íslenska ríkið á 60% þess landsvæðis sem tillögur arkitektanna náðu yfir. Var kannski farið of geyst af stað?

 

KR býr við alvarlegt aðstöðuleysi

 

En hvernig getum við beitt okkur þegar aðstaða fyrir hreyfingu, leiki og íþróttir finnst nánast ekki lengur í Vesturbænum og aðstaða KR getur engan veginn mætt þörfinni og eftirspurninni

Í Vesturbæjarblaðinu í dag er m.a. fjallað um framtíð og stefnu KR og þá aðstöðu eða aðstöðuleysi sem félaginu er boðið upp á, sem í dag er mun lakari en margra annara íþróttafélaga í borginni. Nægir þar að nefna þá aðstöðu sem borgin hefur skapað íþróttafélögunum Val og Fjölni og nú á að byggja íþróttamiðstöð í Grafarholti fyrir Fram með mörgum völlum og íþróttahúsum. Aðstaða fyrir hreyfingu, leiki og íþróttir finnst nánast ekki lengur í Vesturbænum. Það er ekki ásættanlegt. Hafa pólitíkusarnir gleymt KR? Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2006 funduðu  frambjóðendur til borgarstjórnar í KR-heimilinu og svo virtist sem leysa ætti úr þeirri þörf sem KR er í hvað varðar æfingavelli og fleira. Kjörtímabilið er hálfnað í vor, ekkert hefur enn bólað á neinum tillögum þrátt fyrir loforðaflauminn, og koma kannski ekki fyrr en nær dregur kosningum. Þá verður líklega dustað rykið af gömlu tilögunum eða hugmyndunum. Hlutfallslega færri börn stunda íþróttir í Vesturbænum en í mörgum öðrum hverfum borgarinnar. Ástæður eru margar, en líklega sú mikilvægasta er Hringbrautin. Foreldrar sem þurfa að senda börnin sín yfir Hringbrautina vestur í Frostakjól gera það margir hverjir ekki vegna þess að börnin þurfa að fara yfir mikla umferðaræð. Eina lausnin er að byggja göng undir Hringbrautina sem börnin geta farið um, það er eina örugga lausnin. Af hverju er ekkert gert? Kannski nýskipuð stjórn Hverfissamtaka Vesturbæjar taki málið í sinar hendur og beiti núverandi meirihluta í Ráðhúsinu við Tjörnina þrýstingi. Það væri verðugt verkefni.

Áhugafólk um betri Vesturbæ hefur stofnað með sér samtökin "Vinir Vesturbæjar." Samtökin eru hugsuð til að skapa vettvang fyrir Vesturbæinga og hagsmunaaðila til þess að koma með hugmyndir og taka þátt í að móta heilsteypta stefnu fyrir hverfið.

Vesturbæjarblaðið styður þessi áform nýrra samtaka, Vesturbæjarblaðið er vettvangurinn til þess að koma þeim stefnumálum á framfæri við allan almenning og stjórnmálamennina.

 


Gamli góði Dagur níræður

Fyrir 90 árum síðan, 12. febrúar 1918, var stofnað dagblað á Akureyri, DAGUR. Þótt Dagur væri lengst af málgagn Framsóknarmanna í Eyjafirði og síðar einnig á Norðurlandi, flutti það mest óhlutdrægar fréttir af mönnum og málefnum á Norðurlandi. Þrátt fyrir samkeppni frá öðrum flokkspólitískum blöðum, eins og Íslendingi og Norðurlandi, stóð Dagur af sér alla stórsjói. Þegar Erlingur Davíðsson varð ritstjóri blaðsins jókst hróður þess enn frekar, politískum andstæðingum til sárrar gremju. Þegar Erlingur lét af starfi ritstjóra tóku við ritstjórn Dags ýmsir flokkspólitískir gæðingar sem voru vandanum misjafnlega vaxnir.

Á síðasta áratug 20. aldarinnar ætlaði þáverandi kaupfélagsstjóri, Valur Arnþórsson, að gera Dag að stórveldi, blaðið átti að verða dagblað sem þjónaði Norðurlandi og Austurlandi. Byggt var stórhýsi yfir blaðið í Strandgötu sem ekki var fjármálaleg glóra í, enda hrökklaðist starfsemin úr því húsnæði í sambyggt hús þegar á leið, en eftir að Dagur var orðið dagblað, kom út 5 daga vikunnar. Pólitískir gæðingar sátu eftir sem áður í stjórn fyrirtækisins, menn sem margir hverjir voru fjarri því að vera vandanum vaxnir. Storveldisdraumar héldu áfram, og keypt var dagblaðið Tíminn og blöðin sameinuð undir ónefninu DAGUR-TÍMINN, með ritstjórnarskrifstofur bæði á Akureyri og í Reykjavík og dreifingu um allt land. Ritstjóri var ráðinn Stefán Jón Hafstein. Daglega var blaðið með tvær forsíður, eina fyrir norðan en aðra fyrir sunnan. Það gekk ekki lengi, Tímanafnið hvarf og aftur voru starfsmenn farnir að vinna á Degi. Sífellt var verið að hagræða í rekstri sem yfirleitt var fólgið í því að segja upp starfsfólki og leggja meiri vinnu á herðar þeirra sem eftir sátu. Aðferðin sem notuð var til að fækka starfsfólki var nokkuð hlægileg, þú viðkomandi hafi ekki verið hlátur í hug, þ.e. öllum starfsmönnum var sagt og svo voru eitthvað færri endurráðnir. Undirritaður var blaðamaður á Degi á þessum árum og fékk á jafnmörgum árum fimm uppdsagnarbréf, en var jafnharðan ráðinn! Prentvélin var komin til ára sinna en engum af stjórnendum fyrirtækisins datt í hug að kosta einhverju til og nútímavæða hana. Nei, það var bara fækkað um einn aðstoðarmann í prentsmiðju, einn umbrotsmann og einn eina konu í skúringum.

Loksins þegar reksturinn var farinn að skila hagnaði undir lok síðustu aldar, dundu ósköpin yfir. Feðgarnir Sveinn Eyjólfsson og Eyjólfur Sveinsson, eigendur DV, skruppu norður og keyptu DAG, bara sísona. Dagur var horfinn, orðinn hluti af DV. Við starfsmenn héldum vinnunni, ef við þekktumst boðið, sem flestir gerðu, en vorum orðnir starfsmenn DV hvort sem okkur líkaði betur eða ver.

Það hefði verið gaman að fagna 90 ára afmæli DAGS, en svo verður auðvitað ekki. Eigur þessa fyrrum norðlenska stórveldis á fjölmiðlamarkaðinum eru komnir út og suður, eða kannski norður og niður, helst að hægt sé að finna myndir og filmur á Amtsbókasafninu á Akureyri. Það er hins vegar enginn hægðaleikur því safnið liggur í kössum og ekkert er hirt um það, hvað þá að reynt sé að flokka safnið. Fyrrum eigandi Dags, KEA, er nú ekki heldur orðið að neinu, svona skúffa einshvers staðar með inneign í Landsbankanum. Það væri hins vegar verðugt verkefni fyrir þetta gamla kaupfélag, eða fyrir umsjónarmenn skúffunnar, að sýna þessu merka framtaki í norðlenskri menningarsögu virðingu, sem útgáfa Dags var, með því að kosta til flokkunar á myndasafninu og efna svo til sýningar. Það yrði mjög merkt menningarframlag, og þar með yrði þessu níræða blaði sýndur sá sómi sem það á margfalt skilið. Yrði væntanlegt menningarhús á Eyrinni á Akureyri ekki verðugur vettvangur fyrir slíka sýningu?


Var beðið um að skammdegið kæmi ekki?

Beðið gegn myrkrinu á Íslandi, var yfirskrift bænagöngu sem fram fór í dag og hófst við Hallgrímskirkju. Markmið göngunnar var að biðja saman í einingu gegn myrkrinu og um leið vekja athygli á því að Jesús Kristur væri ljósið sem yfirvinnur myrkrið. Hann sagði sjálfur ”Ég er ljós heimsins,  sá sem trúir á mig mun ekki ganga í myrkri”. Að göngunni komu saman ýmis kristin trúfélög, Þjóðkirkjan, félagasamtök, hópar og einstaklingar sem vilja sjá breytingar á Íslandi til blessunar fyrir þjóðina og ekki síst ungu kynslóðina sem mun erfa landið.

Þó Kristur væri ljós heimsins, hvernig á að skilja þennan boðskap öðru vísi en að skammdegið kæmi ekki? Það er góðra gjalda vert að efna til bænagöngu í nálægð aðventunnar, en boðskapurinn ogtil tilgangurinn verður að vera þannig að fólk skilji hann. Sumir hafa skilið þetta þannig að verið sé leggja stein í götu samkynhneigðra. Það er það örugglega ekki enda ansi langsótt að skilja tilgang þessarar göngu þannig.

Nær hefði verið að bilja fyrir því að allir sýndu náunganum kærleika og umburðarlyndi, ekki veitir af í þessu stressaða þjóðfélagi.


Berjatínsla og græðgi bænda

Það er alveg merkilegt hvað það getur gripið mann að tína ber, ekki síst ef það er fullt af þeim á afmörkuðu svæði. Konan dró mig norður í land á hennar heimaslóðir í árlega berjatínsluferð, nokkuð sem ég hef til þessa verið fimur að koma mér undan, en nú dugði ekki að beita fyrir sér önnum í vinnu, knattspyrnu eða einhverju enn öðru. Það var því ekki með sérstakri gleði sem ég fór út í Ólafsfjarðarmúla í dag að tína ber.

En viti menn. Þetta var góð útivist í frábæru veðri, alveg hellingur af berjum svo lítrarnir urðu töluvert margir, og svo var félagsskapur þeirra systra ( ein mágkona mín fór með) ekki til að draga úr. Það besta við þetta er þauðvitað það að berin eru svo góð, og maður kemur hróðugurí bærinn með fullt af berjum, getur boðið ættingjunum að smakka. Það er ljóst að það er mikið af berjum á Íslandi í dag, auðvitað misjafnlega mikið eftir landssvæðum, en allir eiga að geta tínt. Það er hins vegar óskiljanlegt að sumir bændur séu að banna fólki að fara um óræktuð lönd og tína ber, rétt eins og þeir hafi ræktað þau! Þetta er hrein græðgi í bændum, ekki hirða þeir berin sem annars verða ónýt í fyrstu frostnóttunum, nei frekar að sýna vald sitt og banna en leyfa öðrum að njóta berjanna. Með sama hætti má benda á rjúpnaveiðina. Með ærnum tilkostnaði verða menn sér úti um veiðkort, en þá verða menn til viðbótar að borga bændum fyrir að fara um heiðar og skjóta rjúpur, sem sannarlega eru ekki ræktaðar af bændum. Þessi endemis yfirgangur verður ekki til þess að auka skilning manna á starfi bænda, eða auka virðingu fyrir stéttinni. Og er þó full þörf á því.

 


Birtingar úr skattskrá liður í jafnréttisbaráttunni

Tímaritið FRJÁLS VERSLUN hefur nú birt árlega umfjöllun um hæstu skattgreiðendurna á landinu, og er það vel þar sem það er m.a. liður í því að upplýsa landsmenn um launakjör og launaþróun í landinu og leiða í ljós það misrétti sem viðgengst í launakjörum milli kynjanna. Ungir sjálfstæðismenn segja að þetta séu eins konar persónunjósnir en átta sig ekki á því að á meðan mikil leynd hvílir yfir launum æðstu stjórnenda, jafnvel einnig í opinbera geiranum, er nauðsynlegt að upplýsa landsmenn um það vaxandi launamisrétti sem viðgengst hérlendis. Er eðlilegt að forstjóri banka hafi 64 milljónir króna í tekjur í mánuði? Eða að forstjóri Icelandair sé með 16 milljónir króna, og aðstoðarframkvæmdastjóri FL-Group með 14 milljónir króna? Svo eru aðrir með ótrúlega lágar mánaðartekur eins og svokallaður þingmaður Vestmannaeyja með 80 þúsund krónur og stjórnarformaður Byggðastofnunar með 254 þúsund krónur og endurhæfingarlæknir með 188 þúsund krónur, leikmaður FH og viðskiptajöfur með 72 þúsund króna mánaðartekur! Þessar lágu tölur eru auðvitað ekkert annað en brandari, en um leið mikill áfellisdómur yfir starfsfólki skattstofanna sem greinilega stunda enga krítíska endurskoðun á framtali þessa fólks, eða skortir til þess þekkingu. Auk þessa eru svo allar "svörtu" tekjurnar sem hvergi koma fram en hlutur þeirra hefur eflaust verið að aukast á síðustu árum, ekki síst eftir að farið var að flytja inn ólöglega vinnukraft frá Austur-Evrópu, ekki síst í tengslum við virkjanaframkvæmdir, og geyma eins og skepnur utan langs vinnutíma, jafnvel í gámum. Ég skora á nýjan viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra, sem setið hefur um alllangt skeið í þeim stól, að skera upp herör gegn þessari þróun. Þjóðin krefst þess einfaldlega.


Afmæli og landsmót

Sit hér þegar komið er fram á nótt og nýt þess að hafa átt afmæli í dag og hafa fengið hluta af fjölskyldunni hingað í grillveislu í veðurblíðunni. Svo veltir maður vöngum yfir því eftir mikið kjötát og svolitla rauðvínsdrykkju af hverju maður er að borða svona mikið. Fór svo eftir að gestirnir voru farnir að prófarkalesa næsta KÓPAVOGSBLAÐ sem kemur út á fimmtudaginn, fullt af nærfréttum eins og svona blöð eiga að vera uppfull af. Þar er einnig fjallað ítarlega um Risalandsmót UMFÍ sem sett verður á Kópavogsvelli næsta fimmtudag. Það er stórkostleg hátíð framundan í Kópavogi, hvorki meira né minna.

Svona hátíðir verða stöðugt mikilvægari þegar horft er til alls þess sem er að glepja ungdóminn í dag, og margt miður fallegt eða heppilegt eins og eiturlyf. Hér áður fyrr fundum við krakkarnir sjálf upp á leikjum alls konar eða spiluðum knattspyrnu við fremur frumstæðar aðstæður. Við stofnuðum nokkrir félagar knattspyrnufélagið Spyrni og lékum okkur á grundunum fyrir neðan ungmennafélagshúsið við Holtaveg í Reykjavík og kepptum við önnur strákafélög. Það kvartaði enginn undan aðstöðunni, en nú þurfa túninn að vera eggslétt eins vatnsflötur í stafalogni. En "nú er hún Snorrabúð stekkur" og ungmennafélagshúsgrundirnar horfnar undir húsdýragarð.

Frumkvæðið í leik barna og unglinga er að mestu horfið, allt þarf að vera "prógrammerað," frumkvæðið á hröðu undanhaldi, því miður. Ekki er gott að átta sig á þvi hvað er til ráða, kannski ættu foreldrar, eða við afar og ömmur að taka frumkvæðið og kenna barnabörnunum okkar gömlu leikina, fara t.d. í sto eða indíánaleik. Sjáum til!

 


Frábært hjá Athygli að styrkja Barnaheill

Athygli hefur ákveðið að styrkja Barnaheill – Save the Children á Íslandi

Með sérstökum samningi hefur Athygli ehf. gerst einn samstarfsaðila Barnaheilla og mun fyrirtækið styrkja samtökin með endurgjaldslausu framlagi vegna ímyndar- og kynningarmála á árinu 2007. Samningurinn er liður í þeirri stefnu stjórnar fyrirtækisins að leggja sitt af mörkum til samfélagsmála. Petrína Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla segir þetta samstarf við Athygli afar þýðingarmikið fyrir samtökin: „Við hjá Barnaheillum gerum okkur grein fyrir mikilvægi þess að eiga trúverðug og fagleg samskipti við hagsmunaaðila okkar og við treystum Athygli afar vel til að aðstoða okkur í þeim efnum. Við erum þeim mjög þakklát fyrir þennan góða stuðning.“ Valþór Hlöðversson framkvæmdastjóri Athygli segir að með þessu vilji félagið styrkja það mannræktarstarf sem fram fari hjá Barnaheillum. „Það er sérstaklega ánægjulegt að fá að vinna fyrir Barnaheill nú því samtökin eru jafngömul okkar fyrirtæki, stofnuð 1989. Það var einmitt eitt af okkar fyrstu verkefnum að koma Barnaheillum á framfæri við fjölmiðla á sínum tíma.“

Þessi styrkur Athyglis er athyglisverður og jafnframt lofsvert að fyrirtæki skuli veita stofnunum eins og Barnaheill, sem vinnur þjóðfélagslegt hjálparstarf, styrk. Ástæða er til þess að hvetja fyrirtæki til að styrkja fleiri fyrirtæki sem eru að vinna þjóðfélagslegt gagn, af nógu er að taka.


Skoðum fallega náttúru lands okkar

Þegar ég var um 10 ára aldurinn kom kunningi pabba í heimsókn, mjög sigldur maður. Hann var þá að koma úr löngu ferðalagi þar sem hann hafði m.a. heimsótt Tyrkland. Ég man ekki lengur ferðasöguna en er það eitt minnistætt að í ljós kom að þessi maður hafði aldrei til Þingvalla komið, helgasta stað okkar Íslendinga. Ég held að í dag séu fáir Íslendingar sem hafa ekki komið til Þingvalla og gengið um Almannagjá, þeir sem það hafa þá ekki gert viðurkenna það ekki. Með auknum fjárráðum landsins aukast auðvitað utanlandsferðir, en hafa ferðir um landið aukist að sama skapi? Því miður er það ekki svo, og samt búum við á einu fallegasta og hreinasta landi heims. Ég hvet alla til að skoða landið, bæði algenga ferðamannastaði og ekki síður afskekktar náttúruperlur sem víða er að finna. Hvernig væri að fara vestur í Djúpuvík, ganga um Rekavík að bak Látur, fara norður fyrir heimskautsbaug í Grímsey, skoða Fontinn á Langanesi, ganga á Snæfell fyrir austan eða á Hjörleifshöfða? Ég fullyrði að allt eru þetta ferðir fullkomlega þess virði að séu farnar, og fjölmargar fleiri.

En hvað veldur? Sjálfsagt verðlagið en óvíða á Vesturlöndum er dýrara fyrir ferðamenn að kaupa sér gistingu, mat og afþreyingu en á Íslandi , þó er tala ferðamanna komin yfir 300 þúsund, eða fleiri en allir landsmenn. Hér er því virkilega eftir einhverju að sækjast, en við megum ekki falla í gryfju græðgi þegar kemur að verðlagningu. Ég hef undanfarin ár sótt ráðstefnu freelance blaðamanna á Norðurlöndum sem haldin er til skiptis á Norðurlöndunum, þ.e. Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, en ekki enn á Íslandi. Ástæðan er einföld, norrænir blaðamenn telja Ísland einfaldlega of dýrt. Íslensk ferðamálasamtök ættu að sjá hag sinn í því að að þessi ráðstefna yrði líka haldin á Íslandi og fá styrktaraðila til að greiða ferðir og uppihald verulega niður. Hingað kæmu þá allt að 60 blaðamenn á einu bretti sem myndu fjalla samtímis margir hverjir um land og þjóð. Það væri ódýr auglýsing.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband