Ljós í svartnættinu, eða hvað?

Ég er að lesa að hagfræðideild Landsbankans spáir 0,25% lækkun stýrivaxta. Það er þá ekki alls staðar svartnætti. Í síðustu yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands þann 8. desember 2010 kom fram að peningastefnunefndin teldi að enn kynni að vera eitthvert svigrúm til áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds, héldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist og verðbólga hjaðnaði eins og spáð er. Á þeim tíma sem liðið hefur frá ákvörðuninni hefur verðbólga vissulega hjaðnað hraðar en væntingar stóðu til um og mælist hún nú 1,8%, töluvert undir 2,5% markmiði Seðlabankans. Þar skiptir þó mestu áhrif lækkunar vísitölunnar vegna niðurfellingar útvarpsgjalds úr vísitölunni og tímabundin útsöluáhrif í janúarmánuði. Raunstýrivextir hafa því hækkað talsvert frá síðustu vaxtaákvörðun sem eykur aðhaldsstig peningastefnunnar. Á móti vegur að gengi krónunnar hefur veikst umtalsvert á sama tímabili, en gengisvísitalan hefur hækkað um 4% frá því vöxtum var síðast breytt, þar af um 2,7% frá áramótum. Lítil velta er hinsvegar á gjaldeyrismarkaði og þarf því lágar upphæðir til að hreyfa við krónunni. Á heildina litið telur hagfræðideild Landsbankans líklegt að peningastefnunefndin telji svigrúm til vaxtalækkunar minna en ella og muni því aðeins lækka virka stýrivexti seðlabankans um 0,25% á næsta vaxtaákvörðunardegi hinn 2.febrúar nk. Það er þó hænufetið, ekki satt?


Hreinsun á bæjarskrifstofum Kópavogs

Einum hverjum tíu starfsmönnum á bæjarskrifstofunum í Kópavogi hefur verið sagt upp störfum og nefndarmönnum verður fækkað um 30. Til stendur að spara 70 milljónir króna á ári í stjórnsýslunni. Einn lengsti bæjarstjórnarfundur sem haldinn hefur verið í Kópavogi var sl. þriðjudag, en hann hófst kl. 16.00 og stóð fram yfir miðnætti með tilheyrandi þjarki. Búið er að sauma að menningarstofnunum bæjarins og því voru skipulagsbreytingar hjá stjórnsýslu Kópavogsbæjar það næsta sem skera skyldi niður. Breytingarnar eru hluti af samstarfssamningi meirihlutans í bæjarstjórn Kópavogs en þar er kveðið á um einföldun í stjórnsýslu og fækkun nefnda. Breyttri stjórnsýslu er þannig ætlað að auka skilvirkni og stytta boðleiðir en jafnframt tekur hún mið af breyttum áherslum og verkefnum bæjarins í kjölfar efnahagshrunsins. Áhersla er lögð á að breytingarnar komi sem minnst niður á þjónustu við bæjarbúa. Tómstunda- og menningarsvið bæjarins verður klofið í tvennt, hluti fer undir fræðslusvið en menningarstofnanirnar undir stjórnsýslusvið. Skipulags- og umhverfissvið sameinast framkvæmda- og tæknisviði í umhverfissvið. Samtals verða því svið bæjarins fjögur en ekki sex. Þetta gerist á sama tíma og ráðnir hafa verið tveir atvinnufulltrúar til bæjarins til að draga úr atvinnuleysi. Hefði ekki verið nær að ráða einhvern af þeim bæjarstarfsmönnum sem nú fær að fjúka?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband