27.1.2011 | 09:43
Hreinsun á bæjarskrifstofum Kópavogs
Einum hverjum tíu starfsmönnum á bæjarskrifstofunum í Kópavogi hefur verið sagt upp störfum og nefndarmönnum verður fækkað um 30. Til stendur að spara 70 milljónir króna á ári í stjórnsýslunni. Einn lengsti bæjarstjórnarfundur sem haldinn hefur verið í Kópavogi var sl. þriðjudag, en hann hófst kl. 16.00 og stóð fram yfir miðnætti með tilheyrandi þjarki. Búið er að sauma að menningarstofnunum bæjarins og því voru skipulagsbreytingar hjá stjórnsýslu Kópavogsbæjar það næsta sem skera skyldi niður. Breytingarnar eru hluti af samstarfssamningi meirihlutans í bæjarstjórn Kópavogs en þar er kveðið á um einföldun í stjórnsýslu og fækkun nefnda. Breyttri stjórnsýslu er þannig ætlað að auka skilvirkni og stytta boðleiðir en jafnframt tekur hún mið af breyttum áherslum og verkefnum bæjarins í kjölfar efnahagshrunsins. Áhersla er lögð á að breytingarnar komi sem minnst niður á þjónustu við bæjarbúa. Tómstunda- og menningarsvið bæjarins verður klofið í tvennt, hluti fer undir fræðslusvið en menningarstofnanirnar undir stjórnsýslusvið. Skipulags- og umhverfissvið sameinast framkvæmda- og tæknisviði í umhverfissvið. Samtals verða því svið bæjarins fjögur en ekki sex. Þetta gerist á sama tíma og ráðnir hafa verið tveir atvinnufulltrúar til bæjarins til að draga úr atvinnuleysi. Hefði ekki verið nær að ráða einhvern af þeim bæjarstarfsmönnum sem nú fær að fjúka?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.