4.8.2007 | 13:21
Birtingar úr skattskrá liður í jafnréttisbaráttunni
Tímaritið FRJÁLS VERSLUN hefur nú birt árlega umfjöllun um hæstu skattgreiðendurna á landinu, og er það vel þar sem það er m.a. liður í því að upplýsa landsmenn um launakjör og launaþróun í landinu og leiða í ljós það misrétti sem viðgengst í launakjörum milli kynjanna. Ungir sjálfstæðismenn segja að þetta séu eins konar persónunjósnir en átta sig ekki á því að á meðan mikil leynd hvílir yfir launum æðstu stjórnenda, jafnvel einnig í opinbera geiranum, er nauðsynlegt að upplýsa landsmenn um það vaxandi launamisrétti sem viðgengst hérlendis. Er eðlilegt að forstjóri banka hafi 64 milljónir króna í tekjur í mánuði? Eða að forstjóri Icelandair sé með 16 milljónir króna, og aðstoðarframkvæmdastjóri FL-Group með 14 milljónir króna? Svo eru aðrir með ótrúlega lágar mánaðartekur eins og svokallaður þingmaður Vestmannaeyja með 80 þúsund krónur og stjórnarformaður Byggðastofnunar með 254 þúsund krónur og endurhæfingarlæknir með 188 þúsund krónur, leikmaður FH og viðskiptajöfur með 72 þúsund króna mánaðartekur! Þessar lágu tölur eru auðvitað ekkert annað en brandari, en um leið mikill áfellisdómur yfir starfsfólki skattstofanna sem greinilega stunda enga krítíska endurskoðun á framtali þessa fólks, eða skortir til þess þekkingu. Auk þessa eru svo allar "svörtu" tekjurnar sem hvergi koma fram en hlutur þeirra hefur eflaust verið að aukast á síðustu árum, ekki síst eftir að farið var að flytja inn ólöglega vinnukraft frá Austur-Evrópu, ekki síst í tengslum við virkjanaframkvæmdir, og geyma eins og skepnur utan langs vinnutíma, jafnvel í gámum. Ég skora á nýjan viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra, sem setið hefur um alllangt skeið í þeim stól, að skera upp herör gegn þessari þróun. Þjóðin krefst þess einfaldlega.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.