Gamli góði Dagur níræður

Fyrir 90 árum síðan, 12. febrúar 1918, var stofnað dagblað á Akureyri, DAGUR. Þótt Dagur væri lengst af málgagn Framsóknarmanna í Eyjafirði og síðar einnig á Norðurlandi, flutti það mest óhlutdrægar fréttir af mönnum og málefnum á Norðurlandi. Þrátt fyrir samkeppni frá öðrum flokkspólitískum blöðum, eins og Íslendingi og Norðurlandi, stóð Dagur af sér alla stórsjói. Þegar Erlingur Davíðsson varð ritstjóri blaðsins jókst hróður þess enn frekar, politískum andstæðingum til sárrar gremju. Þegar Erlingur lét af starfi ritstjóra tóku við ritstjórn Dags ýmsir flokkspólitískir gæðingar sem voru vandanum misjafnlega vaxnir.

Á síðasta áratug 20. aldarinnar ætlaði þáverandi kaupfélagsstjóri, Valur Arnþórsson, að gera Dag að stórveldi, blaðið átti að verða dagblað sem þjónaði Norðurlandi og Austurlandi. Byggt var stórhýsi yfir blaðið í Strandgötu sem ekki var fjármálaleg glóra í, enda hrökklaðist starfsemin úr því húsnæði í sambyggt hús þegar á leið, en eftir að Dagur var orðið dagblað, kom út 5 daga vikunnar. Pólitískir gæðingar sátu eftir sem áður í stjórn fyrirtækisins, menn sem margir hverjir voru fjarri því að vera vandanum vaxnir. Storveldisdraumar héldu áfram, og keypt var dagblaðið Tíminn og blöðin sameinuð undir ónefninu DAGUR-TÍMINN, með ritstjórnarskrifstofur bæði á Akureyri og í Reykjavík og dreifingu um allt land. Ritstjóri var ráðinn Stefán Jón Hafstein. Daglega var blaðið með tvær forsíður, eina fyrir norðan en aðra fyrir sunnan. Það gekk ekki lengi, Tímanafnið hvarf og aftur voru starfsmenn farnir að vinna á Degi. Sífellt var verið að hagræða í rekstri sem yfirleitt var fólgið í því að segja upp starfsfólki og leggja meiri vinnu á herðar þeirra sem eftir sátu. Aðferðin sem notuð var til að fækka starfsfólki var nokkuð hlægileg, þú viðkomandi hafi ekki verið hlátur í hug, þ.e. öllum starfsmönnum var sagt og svo voru eitthvað færri endurráðnir. Undirritaður var blaðamaður á Degi á þessum árum og fékk á jafnmörgum árum fimm uppdsagnarbréf, en var jafnharðan ráðinn! Prentvélin var komin til ára sinna en engum af stjórnendum fyrirtækisins datt í hug að kosta einhverju til og nútímavæða hana. Nei, það var bara fækkað um einn aðstoðarmann í prentsmiðju, einn umbrotsmann og einn eina konu í skúringum.

Loksins þegar reksturinn var farinn að skila hagnaði undir lok síðustu aldar, dundu ósköpin yfir. Feðgarnir Sveinn Eyjólfsson og Eyjólfur Sveinsson, eigendur DV, skruppu norður og keyptu DAG, bara sísona. Dagur var horfinn, orðinn hluti af DV. Við starfsmenn héldum vinnunni, ef við þekktumst boðið, sem flestir gerðu, en vorum orðnir starfsmenn DV hvort sem okkur líkaði betur eða ver.

Það hefði verið gaman að fagna 90 ára afmæli DAGS, en svo verður auðvitað ekki. Eigur þessa fyrrum norðlenska stórveldis á fjölmiðlamarkaðinum eru komnir út og suður, eða kannski norður og niður, helst að hægt sé að finna myndir og filmur á Amtsbókasafninu á Akureyri. Það er hins vegar enginn hægðaleikur því safnið liggur í kössum og ekkert er hirt um það, hvað þá að reynt sé að flokka safnið. Fyrrum eigandi Dags, KEA, er nú ekki heldur orðið að neinu, svona skúffa einshvers staðar með inneign í Landsbankanum. Það væri hins vegar verðugt verkefni fyrir þetta gamla kaupfélag, eða fyrir umsjónarmenn skúffunnar, að sýna þessu merka framtaki í norðlenskri menningarsögu virðingu, sem útgáfa Dags var, með því að kosta til flokkunar á myndasafninu og efna svo til sýningar. Það yrði mjög merkt menningarframlag, og þar með yrði þessu níræða blaði sýndur sá sómi sem það á margfalt skilið. Yrði væntanlegt menningarhús á Eyrinni á Akureyri ekki verðugur vettvangur fyrir slíka sýningu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband