Skipulagssamkeppni og aðstöðuleysi KR

 

Skipulagssamkeppni til einskis?

Viðamesta og sennilega metnaðarfyllsta skipulagssamkeppni sem haldin hefur verið á Íslandi er samkeppnin um Vatnsmýrina sem nýlega var kynnt. Áhuginn var einnig augljós um allan heim, því alls bárust  yfir 130 tillögur í keppnina. Aðeins í tveimur tillögum var gert ráð fyrir að Reykjavíkurflugvöllur yrði áfram. Skiptar skoðanir hafa verið í borgarstjórn um það hvort flugvöllurinn eigi að vera, og nýr borgarstjóri hefur lýst því yfir að hann verði, og vísar þar til samkomulags milli þeirra sem nú skipa meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. En þegar tillögurnar voru kynntar í Listasafni Reykjavíkur brá svo við að allir voru afskaplega ánægðir með að flugvöllurinn ætti að fara, og þeir sem þyrftu að skreppa út á land í framtíðinni gætu bara skroppið til Keflavíkurflugvallar og flogið þaðan. En vinningstillögurnar fjalla ekkert um það hvort og því síður hvenær flugvöllurinn fer. Borgarstjórn getur hins vegar einfaldlega ekki vikist undan því lengur að taka ákvörðun um framtíð flugvallar í Vatnsmýrinni, jafnvel þótt borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins séu í gíslingu Ólafs F. Magnússonar í þessu máli. Flugvöllurinn er heldur ekkert einkamál Reykvíkinga, höfuðborgin hefur skyldur við alla landsmenn, hér er stjórnsýslan, hingað rekur fólk utan af landi erindi sín við ráðuneyti og aðrar opinberar stofnanir og þetta fólk sættir sig margt hvert ekki við að þurfa að fljúga til Keflavíkurflugvallar til að komast til höfuðborgarinnar ef aðrir samgöngukostir eru ekki fyrir hendi, t.d. á vetrum þegar fjallvegir teppast. Framtíð flugvallar í Vatnsmýrinni er ekki bara spurning um framtíð Reykjavíkur, heldur einnig spurning um framtíð landsbyggðarinnar allrar. Skipulag Vatnsmýrarinnar er ekkert einfalt mál. Það þarf líklega að byrja á því að efna til skipulagssamkeppni um byggð í Vatnsmýrinni með flugvöllinn sér við hlið og þá spyrja eflaust margir, til hvers var þá þessi skrautsýning í Listasafni Reykjavíkur. Svo má minna á að það að íslenska ríkið á 60% þess landsvæðis sem tillögur arkitektanna náðu yfir. Var kannski farið of geyst af stað?

 

KR býr við alvarlegt aðstöðuleysi

 

En hvernig getum við beitt okkur þegar aðstaða fyrir hreyfingu, leiki og íþróttir finnst nánast ekki lengur í Vesturbænum og aðstaða KR getur engan veginn mætt þörfinni og eftirspurninni

Í Vesturbæjarblaðinu í dag er m.a. fjallað um framtíð og stefnu KR og þá aðstöðu eða aðstöðuleysi sem félaginu er boðið upp á, sem í dag er mun lakari en margra annara íþróttafélaga í borginni. Nægir þar að nefna þá aðstöðu sem borgin hefur skapað íþróttafélögunum Val og Fjölni og nú á að byggja íþróttamiðstöð í Grafarholti fyrir Fram með mörgum völlum og íþróttahúsum. Aðstaða fyrir hreyfingu, leiki og íþróttir finnst nánast ekki lengur í Vesturbænum. Það er ekki ásættanlegt. Hafa pólitíkusarnir gleymt KR? Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2006 funduðu  frambjóðendur til borgarstjórnar í KR-heimilinu og svo virtist sem leysa ætti úr þeirri þörf sem KR er í hvað varðar æfingavelli og fleira. Kjörtímabilið er hálfnað í vor, ekkert hefur enn bólað á neinum tillögum þrátt fyrir loforðaflauminn, og koma kannski ekki fyrr en nær dregur kosningum. Þá verður líklega dustað rykið af gömlu tilögunum eða hugmyndunum. Hlutfallslega færri börn stunda íþróttir í Vesturbænum en í mörgum öðrum hverfum borgarinnar. Ástæður eru margar, en líklega sú mikilvægasta er Hringbrautin. Foreldrar sem þurfa að senda börnin sín yfir Hringbrautina vestur í Frostakjól gera það margir hverjir ekki vegna þess að börnin þurfa að fara yfir mikla umferðaræð. Eina lausnin er að byggja göng undir Hringbrautina sem börnin geta farið um, það er eina örugga lausnin. Af hverju er ekkert gert? Kannski nýskipuð stjórn Hverfissamtaka Vesturbæjar taki málið í sinar hendur og beiti núverandi meirihluta í Ráðhúsinu við Tjörnina þrýstingi. Það væri verðugt verkefni.

Áhugafólk um betri Vesturbæ hefur stofnað með sér samtökin "Vinir Vesturbæjar." Samtökin eru hugsuð til að skapa vettvang fyrir Vesturbæinga og hagsmunaaðila til þess að koma með hugmyndir og taka þátt í að móta heilsteypta stefnu fyrir hverfið.

Vesturbæjarblaðið styður þessi áform nýrra samtaka, Vesturbæjarblaðið er vettvangurinn til þess að koma þeim stefnumálum á framfæri við allan almenning og stjórnmálamennina.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband