29.7.2008 | 22:50
Fundu vatn, en gleymdu markaðssetningunni!
Þórir Kristinn Þórisson bæjarstjóri í Fjallabyggð var býsna kátur yfir vatnsflaumi miklum í Héðinsfjarðargöngum og hann sagði að sveitafélagið hygðist nýta vatnið til neyslu, iðnaðar og jafnvel útflutnings. Hann sagði vatnsfundinn mikinn feng fyrir sveitarfélagið og svo mikið vatn væri á svæðinu að það gæti dugað öllu Eyjafjarðarsvæðinu. Þórir bæjarstjóri gleymir hins vegar mikilvægu atriði, sem er sjálf markaðssetningin. Það þarf að finna kaupendur en vatnsútflutningur hefur til þessa ekki verið sú gullnáma sem margir hafa haldið, íslenska vatnið er jú svo tært. Erfitt er líka að skilja samanburð bæjarstjórans þegar hann ber mikilvægi vatnsins saman við olíu. Vatnsfundur í Ólafsfirði er varla sú auðsuppspretta sem bæjarstjórinn heldur og varla tækifæri til uppbyggingar og atvinnusköpunar í stórum stíl eins og bæjarstjórinn telur. Héðinsfjarðargöngin voru alls ekki næsta verkefni í jarðgangagerð á Íslandi ef litið er til mikilvægis og forgangsmála. Nær hefði verið að efla atvinnulíf á Vestfjörðum með byggingu jarðganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.