7.9.2008 | 23:00
Út og suður í kjánalegum hjólreiðatúr
Magnús Bergsson rafvirki er öfgafullur hjólreiðamaður. Það kom berlega í ljós í sjónvarpsþættinum ,,Ú og suður" í kvöld. Maðurinn hlýtur hins vegar að vera bæði ógiftur og barnlaus, það getur enginn boðið sinni fjölskyldu upp á það að vera sífellt á reiðhjóli út og suður um allar trissur. Hvað með að koma börnum í leikskóla eða grunnskóla, konan þarf að komast í vinnuna og þá duga ekki alltaf strætisvagnar, og svo þarf kannski að skutla börnum í ííþróttatíma eða bæinn á enda til að heimsækja afa og ömmu. Á að reiða börnin að kvöldlagi í niðamyrkri? Magnús er stofnandi Fjallahjólaklúbbsins og fáir Íslendingar hafa hjólað jafn langt og víða um landið og hann. Hann er einnig einn helsti andstæðingur einkabílsins og forðast það að taka bílpróf til að falla ekki í þá freistni að aka þegar hægt er að ferðast á hjóli eða tveimur jafnfljótum. Það er bara meginvitleysa. Margir hverjir hafa engan tíma til að vera á reiðhjóli, oft þarf að flytja ýmislegt fleira milli húsa en bara bílstjórann, t.d. ýmsan varning, en Magnús varð eiginlega sprenghlægilegur þegar hann sagðist taka sendibíl einu sinni á ári til að flytja einhver húsgögn. Á venjulegu heimili þarf oft að flytja ýmislegt, jafnvel vikulega, sem ekki er hægt að hengja á reiðhjól.
Þetta viðtal Gísla þáttarstjóra var líka ótrúlega langt, bæði hann og Magnús voru margbúnir að endurtaka sig, og þátturinn löngu orðinn hrútleiðinlegur fyrir það eitt. Ég hélt hins vegar áfram að horfa því mig langaði að vita hvernig hann klóraði sig út úr þessum vandræðum. Honum tókst það ekki. Vonandi verður næsti þáttur af ,,Út og suður" málefnalegri.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.