Þingmaður reiddist þeim sem voru ekki sammála!

Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segist hafa reiðst fulltrúum Fjarðabyggðar á nýafstöðnum fundi með fulltrúum austfirskra sveitarfélaga fyrir viðhorf þeirra til uppbyggingu Axarvegar. Það eru ekki meðmæli með þingmanni að geta ekki hlustað á aðra sem eru honum ekki sammála, og bara reiðast. Austfirðingar með sína sveitarstjórnarmenn í fararbroddi hafa lengi tekist á um forgangsröðun í vegamálum. Heitustu kolin nú eru Norðfjarðargöng, lega Hringvegar, uppbygging Hringvegar og nýr vegur yfir Öxi. „Norðfjarðargöng eru númer eitt í samgöngumálum en um leið ætlum við að huga að uppbyggingu Axarvegar. Það væri ekki til að auka samúð okkar með málstað Fjarðabyggðar ef að þeir ætluðu sér síðan að fara hnýta í næsta mann. Við tölum ekki niður aðrar samgönguframkvæmdir þó svo við ætlum að standa fast á okkar," sagði Jónína. „Ég vildi bara benda á hve ósanngjörn staðan fyrir okkur þingmenn sé því öðru megin væri talað um að nauðsynlegt væri að fara í gegnum Öxi og að fulltrúar Fjarðabyggðar væru mjög ósanngjarnir og óbilgjarnir en á hinum staðnum væru Héraðsbúar sakaðir um sömu óbilgirni." Kannski er þingmaðurinn þeirri staðreynd reiðastur að forgangsröðunin er nokkuð fyrir norðan og vestan en ekki fyrir austan.

 

Orð og athafnir fara ekki alltaf saman

Mikilvægi tónlistarmenntunar er óumdeilt. Allt nám er fjárfesting og á aldrei að tala um útgjöld í því sambandi. Einn af hornsteinum jafnaðarstefnunnar er jafnrétti til náms og þá ekki síður tónlistarnáms. Það eru grundvallar réttindi allra barna að fá tækifæri til að stunda nám í tónlist óháð stétt og stöðu og því þarf að búa svo um hnútana að knappur fjárhagur komi ekki í veg fyrir að börn læri á hljóðfæri. Því þarf að lækka kostnað við tónlistarnám og fjölga tónlistarkennurum í Kópavogi.

Í því sambandi verður áhersla Samfylkingarinnar á komandi kjörtímabili að efla tónlistarnám í grunnskólum Kópavogs enn frekar og bjóða upp á ókeypis forskólanám fyrir alla sem þess óska. Það er mikilvægt að veita auknu fé til Tónlistarskóla Kópavogs í því markmiði að draga úr biðlistum, en eins og staðan er í Kópavogi er allt að 5 ára bið eftir hljóðfæranámi sem er með öllu óásættanlegt. Með einsetningu grunnskólanna stunda börnin hefðbundið tónlistarnám síðdegis og því er mikilvægt að færa tónlistarnám yngstu barnanna að sem mestu leyti inn fyrir veggi grunnskólanna. Þá ekki einungis forskólanámið heldur hið hefðbundna tónlistarnám. Varðandi samning Sameinuðu þjónanna um réttindi barnsins og aðalnámsskrá tónlistarskóla munu jafnaðarmenn í Kópavogi vissulega standa vörð um þá yfirlýsingu nú sem fyrr með því að hrinda ofangreindum markmiðum í framkvæmd.

Þetta sagði einn af forystumönnum Samfylkingarinnar í aðdraganda kosninganna 2006. Síðan kom að vísu efnahagskreppa en kannski hefur tónlistarnámi verið haldið í meira fjársvelti en öðru námi, svo ekki sé talað um íþróttir og hestamennsku. Nú er Samfylkingin í meirihlutasamstarfi í bæjarstjórn Kópavogs en ekki er að sjá að auka eigi möguleika á tónlistarnámi nema síður sé. Stundum fara orð og athafnir ekki saman, því miður.


Makríll eins og engisprettur umhverfis landið

Makríl, þessum hraðsynta fiski án sundmaga, fjölgar stöðugt við Íslandsstrendur. Hvað skyldu vera stórar makrílgöngur í íslenskri auðlindalögsögu núna? Þessari spurningu þarf Hafrannsóknastofnunin að svara, og það sem allra fyrst. Árið 2009 veiddust um 150 þúsund tonn af makríl í íslenskri lögsögu - með afar lítilli sókn og fáum skipum. Heldur meira síðasta ár, man hins vegar ekki hversu mikið. Ef við gefum okkur að veiðst hafi c.a. 2% af því magni sem var á ferðinni við Ísland í fyrra - þá hafa verið ca. 7,5 milljónir tonna á ferðinni. ,,Fróðir" menn segja að magnið nú 2011 gæti verið 23 milljónir tonna. Sjaldan er rætt um vistkerfi hafsins og alla þessa verndun og uppbyggingu fiskistofna sem sjávarútvegsráðuneytið undir stjórn Jóns Bjarnasonar klifar stöðugt á.  ,,Beitarhagar" hafsins er auðvitað takmörkuð  og dýrmæt auðlind en vaxandi gengd makríls étur sig áfram í lögsögunni vestur með Íslandi bæði með suðurströndinni og norðurströndinni og er nú komin inn í grænlensku lögsöguna. Mjög erfitt er að mæla magn makríls með bergmálmælingum þar sem makríll hefur engan sundmaga. Ef það eru 23 milljónir tonna af markíl á ferðinni kringum landið er fæðuþörfin á 3 mánuðum varla undir 40 milljónum tonna af fæðu. Undanfarin ár  hafa makrílgöngur að vori skilið eftir sviðið varp hjá lunda, kríu, ritu og fleiri sjófuglum víða um land, en það er ekki sett í neitt samhengi. Nú er rætt um að rannsaka af hverju sandsíli eru nánast horfin, en er það ekki augljóst að makríll er búinn að éta upp alla fæðu á slóðinni. Makrílgangan er því eins og engisprettufaraldur, nema bara undir yfirborði sjávar.

Oft er þörf en nú er nauðsyn áður en það fer enn verr en þegar er orðið í hafinu. Eitt ráðið er auðvitað að veiða nógu mikið af makrílnum. En Hafrannsóknastofnun á sannarlega næsta leik.


Á næst stærsta bæjarfélag landsins engan miðbæ?

Hvernig miðbæ viljum við í Kópavogi? Oft er spurt hvar miðbær Kópavogs sé, og ekki að ástæðulausu. Stjórnsýslan er í Hamraborginni og þar eru menningarstofnanir Kópavogs flestar og það ætti að gefa atvinnulífinu og þjónustunni á svæðinu byr undir báða vængi, en svo er ekki. Atvinnulífið er mjög fábrotið í Hamraborginni, aðallega þjónustufyrirtæki eins og bankar, fasteignasölur, arkitektastofur, bókhaldsfyrirtæki og flóra verslana er einnig fábrotin, s.s. matvöruverslanir, blómaverslun, bókaverslun og undirfataverslun fyrir konur en engar fataverslanir eða skóbúðir fyrir karlmenn, og fleira vantar. Kaffihús og skyndibitastaðir eru á staðnum en engin ,,fínni" matsölustaðir þar sem hægt er að setjast niður í rólegu umhverfi og njóta stundarinnar. Við Smáratorg og í Smáralind fá bæði kynin eitthvað við sitt hæfi, en umhverfið vantar það sem prýða á og má miðbæ sveitarfélags á stærð við Kópavog. Fyrir nokkrum árum var gert torg í Hamraborginni sem algjörlega misheppnað, engin staldrar þar við, ekki einu sinni í góðviðri, enda þar ekkert um að vera, ekki einu sinni hægt að kaupa þar  kaffibolla. Svo er nafnið mislukkað þó það eigi að vísa til þess að torgið sé á Kópavogshálsi, nafnið minnir frekar á fornan aftökustað. Meira að segja er ekki hægt að koma þar fyrir jólatré fyrir jólin heldur er því klesst upp við Landsbankann. Þetta hefur verið algjört metnaðarleysi en margir binda vonir við að ný miðbæjarsamtök í Kópavogi reisi Hamraborgina úr öskustónni. Miðbærin á að vera miðstöð mannlífs, menningar og verslunar, rétt eins og í öðrum sveitarfélögum sem státa af alvöru miðbæ, eins og t.d. Ísafjörður, Stykkishólmur, Sauðárkrókur, Akureyri og Hafnarfjörður.

Eigum við ekki að gera kröfu til að einhver vitræn ákvörðun verði tekin í þessu máli? Kannski eigum við að treysta Næst besta flokknum í næst stærsta bæjarfélaginu til þess. Hver veit!


Ljós í svartnættinu, eða hvað?

Ég er að lesa að hagfræðideild Landsbankans spáir 0,25% lækkun stýrivaxta. Það er þá ekki alls staðar svartnætti. Í síðustu yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands þann 8. desember 2010 kom fram að peningastefnunefndin teldi að enn kynni að vera eitthvert svigrúm til áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds, héldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist og verðbólga hjaðnaði eins og spáð er. Á þeim tíma sem liðið hefur frá ákvörðuninni hefur verðbólga vissulega hjaðnað hraðar en væntingar stóðu til um og mælist hún nú 1,8%, töluvert undir 2,5% markmiði Seðlabankans. Þar skiptir þó mestu áhrif lækkunar vísitölunnar vegna niðurfellingar útvarpsgjalds úr vísitölunni og tímabundin útsöluáhrif í janúarmánuði. Raunstýrivextir hafa því hækkað talsvert frá síðustu vaxtaákvörðun sem eykur aðhaldsstig peningastefnunnar. Á móti vegur að gengi krónunnar hefur veikst umtalsvert á sama tímabili, en gengisvísitalan hefur hækkað um 4% frá því vöxtum var síðast breytt, þar af um 2,7% frá áramótum. Lítil velta er hinsvegar á gjaldeyrismarkaði og þarf því lágar upphæðir til að hreyfa við krónunni. Á heildina litið telur hagfræðideild Landsbankans líklegt að peningastefnunefndin telji svigrúm til vaxtalækkunar minna en ella og muni því aðeins lækka virka stýrivexti seðlabankans um 0,25% á næsta vaxtaákvörðunardegi hinn 2.febrúar nk. Það er þó hænufetið, ekki satt?


Hreinsun á bæjarskrifstofum Kópavogs

Einum hverjum tíu starfsmönnum á bæjarskrifstofunum í Kópavogi hefur verið sagt upp störfum og nefndarmönnum verður fækkað um 30. Til stendur að spara 70 milljónir króna á ári í stjórnsýslunni. Einn lengsti bæjarstjórnarfundur sem haldinn hefur verið í Kópavogi var sl. þriðjudag, en hann hófst kl. 16.00 og stóð fram yfir miðnætti með tilheyrandi þjarki. Búið er að sauma að menningarstofnunum bæjarins og því voru skipulagsbreytingar hjá stjórnsýslu Kópavogsbæjar það næsta sem skera skyldi niður. Breytingarnar eru hluti af samstarfssamningi meirihlutans í bæjarstjórn Kópavogs en þar er kveðið á um einföldun í stjórnsýslu og fækkun nefnda. Breyttri stjórnsýslu er þannig ætlað að auka skilvirkni og stytta boðleiðir en jafnframt tekur hún mið af breyttum áherslum og verkefnum bæjarins í kjölfar efnahagshrunsins. Áhersla er lögð á að breytingarnar komi sem minnst niður á þjónustu við bæjarbúa. Tómstunda- og menningarsvið bæjarins verður klofið í tvennt, hluti fer undir fræðslusvið en menningarstofnanirnar undir stjórnsýslusvið. Skipulags- og umhverfissvið sameinast framkvæmda- og tæknisviði í umhverfissvið. Samtals verða því svið bæjarins fjögur en ekki sex. Þetta gerist á sama tíma og ráðnir hafa verið tveir atvinnufulltrúar til bæjarins til að draga úr atvinnuleysi. Hefði ekki verið nær að ráða einhvern af þeim bæjarstarfsmönnum sem nú fær að fjúka?


Sýnum aðhald, auðmýkt og þakklæti á jólaföstunni

Jólafasta og fjárhagsáætlun

Fyrsti sunnudagur í aðventu er á sunnudaginn en aðventan heitir líka jólafasta. Það minnir átakanlega á nauðsyn aðhalds. Fastan sem undirbúningur stórhátíðar er mikilvæg. Það er yndislegur siður að ganga að jólahlaðborði allsnægtanna, en ...........nú höfum við síðustu tvö ár verið stöðvuð á þeirri göngu og áminnt um nauðsyn föstunnar. Aðhald og fasta hefur það hlutverk að minna okkur á að gæðin eru ekki sjálfsögð. Í aðhaldi og föstu er fólgin auðmýkt. Og auðmýktin leiðir til þakklætis. Við undirbúning stórhátíðar og gleðihátíðar, er mikilvægt að gleyma ekki föstunni, aðhaldi, - auðmýkt og þakklæti. Þau orð gera okkur hljóð og fá okkur til að hugsa okkar gang. Þau fá okkur til að líta í eigin barm og finna okkar eigin ábyrgð og skyldur. Allsnægtirnar gera okkur svo undarlega kröfuhörð og frek! Auðmýktin gerir okkur líka að betri mönnum. Hún kennir okkur að við erum þiggjendur og að við höfum þegið lífið og lífsgæðin að gjöf. Því ættum við að vera ákafari að þakka. Við skyldum því ekki gleyma boðskap aðventu og jólaföstu, minnast þess að aldrei hafa fleiri verið án atvinnu á Íslandi, aldrei fleiri þurft að stíga þau þungu spor að biðja um aðstoð til þess að geta fætt sig og sína. Það er líka gott á komandi jólaföstu að sýna stjórnvöldum umburðarlyndi þó einhver bið verði á því að heimilunum í landinu verði sýnd áþeifanleg aðstoð, bæði af hálfu stjórnvalda og bankakerfisins.


Nefndin einhæf

Slæmt að Kirkjuþing skyldi ekki bera gæfu til að velja einnig ,,venjulegt" fólk í nefndina, ekki bara háskólaborgara. Eykur ekki líkur á skynsamlegri niðurstöðu, því miður!
mbl.is Kirkjuþing samþykkir nefndina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn er lagt fram fjölmiðlafrumvarp

Nýtt fjölmiðlafrumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi. Í öllum megin atriðum er þetta sama frumvarp og lagt var fram á síðasta þingi og náðist ekki að afgreiða. Stærsta breytingin frá fyrra frumvarpi er að í stað þess að setja á fót sérstaka Fjölmiðlastofu til að hafa eftirlit með framkvæmd laganna og safna upplýsingum um fjölmiðlamarkaðinn, er nú gert ráð fyrir að Fjölmiðlanefnd sjái um þetta hlutverk. Að flestu leyti eru þó greinar frumvarpsins sem lúta að stjórnsýslu samhljóða í gamla og nýja frumvarpinu, nema hvað að í stað „stofu“ er nú talað um „nefnd“.
Það verður fróðlegt að sjá hvaða afgreiðslu þetta frumvarp fær á Alþingi, hverjir tjá sig um það, og hvort það tekur einhverjum breytingum í umfjöllun Alþingis. Svo fer það til staðfestingar forseta á Bessastöðum, hvað gerir hann í það skiptið?


Vottar grunaðir um að hylma yfir kynferðisafbrot

Kynferðisbrot ber að tilkynna til barnaverndaryfirvalda, þó Vottar Jehova skilji það ekki. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, mun ætla að funda með forwsvarsmönnum þessa söfnuðar sem ég hef alltaf litið hornuauga, fyrist og fremst vegna þess að þeir snúa út úr Biblíunni, túlka hana á sinn öfgafulla hátt. Meðlimir safnaðarins hafa orðið uppvísir að meintum kynferðisbrotum, brot sem hafa átt sér stað innan safnaðarins á undanförnum árum, og þetta lið hefur síðan staðið saman að yfirhylmingu.  Bragi vill fá að vita hvernig tekið er á slíkum málum innan safnaðarins. Talsmaður Votta Jehóva, Svanberg Jakobsson, hefur staðfest að af og til hafi vaknað grunsemdir um kynferðisbrot innan safnaðarins á síðustu árum, eða með öðrum orðum, söfnuðurinn tók lögin í sínar hendur. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir lögin alveg skýr; vakni slíkar grunsemdir eigi að tilkynna það til barnaverndaryfirvalda.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband