Af hverju ekki maður ársins á Íslandi 2009?

Eva Joly, ráðgjafi embættis sérstaks saksóknara, segir í viðtali við hollenska blaðið Nrc Handelsblad að hollenskir eftirlitsaðilar hafi verið kærulausir þegar að kom að því að kanna hvort eftirlitsaðilar á Íslandi væru að vinna vinnuna sína varðandi Icesave. Sem þeir gerðu ekki að sögn Joly. Hún segir að Hollendingar hafi reynt að fela mistök sín með því að vísa til lagalegrar skyldu Íslendinga hvað varðar Icesave-reikningana og bætir við að þetta sé hneyksli. Joly segir að ef Hollendingar komi ekki á móts við Íslendinga verði engir eftir á eyjunni aðrar en sjómenn og fólk sem kemur að fiskvinnslu. Á sama tíma verði Hollendingar ekki búnir að fá peningana sína aftur.

Fólksflóttinn er byrjaður. 8.000 vel menntaðir einstaklingar hafa þegar yfirgefið eyjuna og fleiri munu fylgja í kjölfarið. Það er ekki okkar hagur að ganga nærri Íslandi. Landið á gjöfular náttúruauðlindir og staðsetning þess mikilvæg. Við ættum ekki að kúga þá heldur semja við þá, á mun betri og þroskaðri hátt heldur en hingað til," segir Joly. Þarna talar manneskja sem veit og þorir, og í hvert sinn sem hún talar við erlenda fjölmiðla er það okkur til góðs. Hún ætti að taka Darling á beinið, þann mann sem virðist algjörlega veruleikafyrrtur og skilur greinilega ekkert hvað er að gerast hér á Íslandi.

Við hefðum átt að brjóta odd af oflæti okkar, Íslendingar, og kjósa þessa konu manns ársins hér, jafnvel þótt hún sé útlendingur. Með því hefðum við sýnt hug okkar til hennar í verki.


Hægfara og jákvæð uppbygging sem fáir veita athygli

Um 200 manns eru nú með aðstöðu á frumkvöðlasetrum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands en áttunda frumkvöðlasetur miðstöðvarinnar var opnað með formlegum hætti í dag. Sex ný frumkvöðlasetur hafa verið opnuð eftir hrunið í fyrra og hafa um 150 störf myndast innan þeirra. Þetta gerist án þess að misvitrir bankamenn hafa þar hönd í bagga, og vonandi verður svo um framhaldið. Frumkvöðlasetrið, Kím - Medical Park, er ætlað fyrirtækjum í heilbrigðistækni og skyldum greinum og hafa tólf hátæknisprotafyrirtæki fengið aðstöðu þar. Við opnun Kíms í dag kom fram að innan heilbrigðistækninnar felast mikil tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki, enda markaður fyrir lækningatæki og heilsuvörur gríðarstór á heimsvísu, og væntanlega fyrir útflutning í náinni framtíð án þess að útrásarsauðirnir sem hafa komið okkur á kaldan klaka komi þar nærri.

Á meðal fyrirtækja á setrinu eru SagaMedica, sem framleiðir heilsuvörur úr íslenskum lækningajurtum en íslenskt átti ekki upp á pallborðið meðan sauðirnir réðu hér ríkjum og komust upp með hvað sem er. Einnig má nefna Medical Algorithms sem vinnur að hugbúnaðargerð fyrir lækningatæki, Valamed sem er að þróa lyfjanæmispróf fyrir hnitmiðaðri lyfjameðferð og Líf-Hlaup sem vinnur að þróun lyfjasamsetningar til notkunar á slímhúðir. Vonandi er þetta aðeins byrjunin.


Kirkjan má ekki draga lappirnar

Sr. Gunnar þarf að finna sér annað starf vilji hann ekki kljúfa söfnuðinn á Selfossi, það verður aldrei samstaða um að fá hann aftur. Svo verða fermingarbörnin öll hjá nágrannaprestinum, sr. Kristni Ágústi Friðfinnsyni , það verður ekki þægilegt fyrir sr. Gunnar. Sérkennilegt hvað deilumál innan kirkjunnar verða langvinn og seinleyst. Það er henni ekki til framdráttar. Hvað veldur?

 


mbl.is Prestur boðar borgarafund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðild að ESB og upptaka evru það eina rétta

|Komin er út ný og mjög athyglisverð bók; Frá Evróvisjón til Evru - Allt um ESB eftir Dr. Eirík Bergmann dósent við Háskólann á Bifröst og forstöðumann Evrópufræðasetursins. Fræðandi lesing um ESB sem jafnframt leiðir hugann að því hvernig Alþingi með marga vanhæfa um borð tókst að eyða öllu sumrinu í þjark um Icesave, klúður sem Landsbankinn upp á sitt einsdæmi tókst að færa á þjóðina, klúður sem Sigurjón bankastjóri ætti aðvitað að svara fyrir, og það fyrr en seinna. Aðild Íslands að Evrópusambandinu er eitthvert umdeildasta mál síðari tíma. En hvað er þetta ESB? Hver er saga þess? Hvernig er það byggt upp? Hvert er eðli Evrópusamvinnunar? Hvaða áhrif hefur Evrópusambandið á líf, störf og viðskipti Íslendinga nú þegar – og hvað breytist ef ákveðið verður að ganga í sambandið? Hvað veit almenningur á Íslandi mikið um samvinnu þessara 27 aðildarríkja þar sem býr hálfur milljarður manna og talar 89 tungumál? Nánast sáralítið!
Íslendingar verða á næstunni að gera upp hug sig sinn til ESB. Bókin Frá Evróvisjón til evru eftir Eirík Bergmann hefur að geyma allt sem þú vildir vita um Evrópusambandið en þorðir ekki að spyrja um; bók sem á erindi inn á hvert heimili í landinu. Aðild að ESB og upptaka á evru er það eina rétta í stöðunni í dag, ef þessar þjóðir innan ESB samþykkja aðild okkar.

Á bókarkápu er vitnað til umsagnar Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra sem segir: "„Liprasti texti sem Íslendingur hefur skrifað um ESB og fjandi skemmtilegur aflestrar. Á köflum eins og leiftrandi spennusaga."

 


Þarf alla þessa skriffinnsku?

Umhverfisráðherra er að láta framkvæma umhverfismat sem ekki er þörf á og gerir lítið úr úrskurði Skipulagsstofnunar vegna Suðvesturlínu. Ef ráðherra er andstæður stóriðju með þessum hætti á hann að viðurkenna það en ekki fara þessar krókaleiðir og tefja málið.

 


mbl.is Vonbrigði vegna umhverfisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Eyjafjörður með lausnina á vanda þjóðarinnar?

Verður Eyjafjörður vaxtabroddur Íslands þegar við klórum okkur út úr hremmingunum? RANNÍS og Háskólinn á Akureyri buðu til Vísindakaffis á Akureyri undir þessari yfirskrift nú í liðinni viku og þar var rætt um þetta. Verst er að ekkert hefur frést af niðurstöðum þessa Vísindakaffispjalls. Þarna voru þó engir smá spekingar, eða þeir Hreiðar Þór Valtýsson lektor, Jón Þorvaldur Heiðarsson lektor og  Steingrímur Jónsson prófessor svo umræðurnar hafa verið mjög vitrænar.
Þeir félagar spjölluðu um auðlindir Eyjafjarðarsvæðisins í víðasta skilningi og veltu fyrir sér hvort og hvernig Eyjafjörður muni geta leitt okkar til velsældar um ókomna framtíð, hvorki meira né minna. Væntanlega hafa þessir menn líka rætt um þá klemmu sem þjóðin er í, líka Eyfirðingar, hvað varðar Icesave-samninganna og hvort samþykkt Alþingis þar að lútandi er til einskis gerð.
Það væri gaman að sjá hvort einhverjar samþykktir hafa verið gerðar á þessum fundi, og þá hvernig þær hljóða.
Eyfirðingum óska ég Guðs blessunnar.

Þó fyrr hefði verið!

100daganefnd um kosti sameiningar

100daganefnd um kosti sameiningar

Framkvæmdastjórarnir í Bolungarvík, Ísafjarðarbæ og Súðavík hafa skipað nefnd sem fjalla á um kosti og galla þess að sveitarfélögin sameinist.

Framkvæmdastjórarnir í Bolungarvík, Ísafjarðarbæ og Súðavík hafa skipað nefnd sem fjalla á um kosti og galla þess að sameina sveitarfélögin og kallast nefndin Hundraðdaganefnd. Er þess vænst að hún skili af sér innan 100 daga. Bolungarvíkurkaupstaður hefur þegar skipað sína fulltrúa í þessa nefnd, hin sveitafélögin ekki. Ég segi nú ekki annað en, þó fyrr hefði verið!. Bolungarvíkurbær er á heljarþröm fjárhagslega, Ísafjarðarbær stórskuldugur og fátt um framkvæmir í Súðavík íbúum til heilla eða framdráttar. Það á ekkert að bíða eftir nefnd sem tekur sér 100 daga frest til að ákveða hluti sem liggja í augum uppi, það á að sameina sveitarfélögin strax. Ég er fylgjandi því að sveitarfélag hafi að lágmarki 1000 íbúa, þó ekki væri til annars en að íbúarnir gætu átt von á einhverri þjónustu frá sveitarfélaginu fyrir útsvarspeningana.

Eyjafjörður á auðvitað að vera eitt sveitarfélag, Skagafjörður eitt sveitarfélag,  hvað er Skútustaðahreppur og Svalbarðshreppur að standa utan við stærri sameiningu í Þingeyjarsýslum, allt Austurland frá Vopnafirði til og með Breiðdalshreppi á að vera eitt sveitarfélag en Djúpavogshreppur á að sameinast Hornafirði. Svo eru mýmörg tækifæri til sameiningar á Suðurlandi ef grannt er skoðað.

 


Er loksins að rofa til eða er þetta bara svikalogn?

Heimilin í landinu þurfa svo sannarlega að ríkisstjórnin taki tillit til alvarlegs ástands þeirra og snarlækki vexti. Það er kannski von til þess með nýjum Seðlabankastjóra.

En það væri miklu áhrifaríkari aðgerð að afnema verðbætur á lán, en það er verkefni Alþingis sem ekki bar gæfu til þess að sumarþinginu.

En bráðum byrjar nýtt þing og maður heldur alltaf í bjartsýnina.

 


mbl.is Vaxtaákvörðun á morgun markar straumhvörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á byrjunarreit í Icesave-málinu?

Svo kann að vera að við Íslendingar (eða a.m.k. ríkisstjórnin) sé á byrjunarreit í Icesave-málinu ef Bretar og Hollendingar hafa hafnað þeim fyrirvörum við samninginn sem Alþingi samþykkti.  Ríkisstjórnin getur engu þokað því hún grípur ekki frammi fyrir hendururnar á Alþingi, og þá eykst nú vandi Jóhönnu forsætisráðherra, og var þó ærin fyrir. Nú hafa borist hugmyndir frá Bretum og Hollendingum um hvernig ljúka megi IceSave málinu. Samkvæmt fréttum ríkissjónvarpsins gera þjóðirnar athugasemdir við að ríkisábyrgðin taki enda 2024. Í lögum um ríkisábyrð er skýrt kveðið á um að ábyrgðin taki ekki gildi fyrr en Bretar og Hollendingar hafa lýst yfir samþykki sínu við fyrirvarana með óyggjandi hætti. Jafnframt er algjörlega skýrt að fyrirvörunum verður ekki breytt nema með lögum. Það er því ljóst að íslensk stjórnvöld geta ekki samþykkt neinar breytingar á fyrirvörunum, með eða án fyrirvara um samþykki Alþingis, án þess að farið sé á svig við lög. Ef einhverjir hafa hugmyndir um annað þá koma upp í hugan hugtök eins og ráðherraábyrgð og virðing fyrir Alþingi.

Mikilvægt er að trúnaði á hverjar hugmyndir Breta og Hollendinga verði aflétt þannig að efnisleg umræða geti farið fram. Valdhöfunum ætti að vera ljóst að þeir komast ekki til lengdar upp með að múlbinda þingmenn með kröfu um trúnað og virða hann síðan ekki sjálf. Ríkisstjórnin á að sýna þá hreinskilni að birta athugasemdir Breta og Hollandi, og það strax! 


Mótmælum ofbeldi iðjuleysingja

Hver sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búinn, lætur út boð ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en eitt ár ef sakir eru mjög miklar.

Allt þetta höfum við orðið vitni að en fréttastofur freistast til að kalla þetta ofbeldi mótmæli, en að þessu ofbeldi standa fyrst og fremst iðjuleysingar, þekktir afbrotamenn, fólk i vímu eða sturlað og sjá mátti ruglaðan mann norðan úr Húnaþingi sem gekk með ógnandi hætti fram hjá lögreglunni, en var í besta falli sjálfum sér að athlægi.

Á að segja svona skilmerkilega frá þessu og það einhliða eins og fréttastofurnar hafa gert? Varla!

Það er til skammar þeim sem hvetja til árása á lögregluna eða þeim sem birta nöfn þeirra á vefnum og jafnvel þeirra fjölskyldu, heimilisfang eða fleira, slíka auðnuleysingja á ríkissaksóknari auðvitaða sækja til saka, vilji hann standa undir nafni.

Og nú hefur verið boðað til mótmæla gegn ofbeldi og eignaspjöllum. Þau munu fara fram á Lækjartorgi næsta sunnudag, 25. janúar, kl. 15.00, Þetta er tækifæri fyrir alla, sama hvaða stjórnmálaskoðanir þeir hafa, til að mótmæla þeim ofbeldisaðferðum sem afmarkaður hópur hefur beitt að undanförnu. Þetta er vettvangur fyrir þá sem vilja hvetja samborgara okkar til að sýna stillingu og mótmæla með friðsamlegum hætti. Mikilvægi þess að við búum í friðsamlegu samfélagi, þar sem rödd og penna er beitt í stað hnefa og grjóts, verður ekki vanmetið. Allir eru hvattir til að mæta. Ekki er nóg að sitja heima, ef við viljum hafa áhrif.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband